Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt könnun MMR sem fór fram dagana 11.-26. apríl 2017 með 25,2% fylgi. Fylgi flokksins helst nokkuð stöðugt milli kannana. Vinstri grænir mældust með næst mest fylgi eða 23,4% og er það aðeins lægra fylgi en í síðustu könnun þegar fylgið mældist 23,5%. Fylgi Pírata mældist nú 12,8% og lækka þeir um tæplega eitt prósentustig milli mælinga.

Framsókn mældist með 11,1% fylgi. Samfylkingin bætir við sig fylgi milli kannana, mældist með 8,8% í síðustu könnun og með 10,6% fylgi nú. Fylgi Viðreisnar mældist 5% í könnunni.

Fylgi Bjartrar framtíðar heldur áfram að dragast saman, en mældist nú 3,2% samanborið við 5% í síðustu könnun. Flokkur fólksins mældist með jafn mikið fylgi og Björt framtíð, eða 3,2%. Fylgi annarra flokka mældist 5,4% samanlagt.

Stuðningur við ríkisstjórnina lækkaði milli mælinga. Alls kváðust 31,4% styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 34,5% í síðustu könnun.