Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn mælast með nánast jafn mikið fylgi í Reykjavík í nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup sem greint var frá í hádegisfréttum RÚV í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 28,5% sem er svipað og í síðustu könnun en flokkurinn fékk 34% atkvæða í kosningum 2010. Besti flokkurinn, sem vann kosningasigur árið 2010, býður ekki fram að þessu sinni heldur hefur Björt framtíð tekið við keflinu. Björt framtíð bætir við sig 3 prósentustigum frá síðustu könnun og mælist nú nánast jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn eða með 28,1%.

Stuðningur við Samfylkinguna dalar aðeins milli kannanna. Hún mælist með 18,2% en var með 20 og 21% í síðustu tveimur könnunum. Píratar, sem voru með tvo borgarfulltrúar samkvæmt síðustu könnun eru nú aðeins með einn. Vinstri græn bæta við sig fylgi milli kannana en Framsóknarflokkurinn dalar og mælist með 3,3% fylgi í borginni.

Könnun Capacent Gallup:

  • Sjálfstæðisflokkur 28,5% - 5 borgarfulltrúar.
  • Björt framtíð 28,1% - 5 borgarfulltrúar .
  • Samfylking 18,2% - 3 borgarfulltrúar.
  • Píratar 10,9% 1 borgarfulltrúi.
  • Vinstri grænir 9,7% - 1 borgarfulltrúi.
  • Framsóknarflokkur 3,3% - Enginn borgarfulltrúi.

Könnunin var gerð frá 16. janúar til 16. febrúar. Heildarúrtaksstærð var 1.730 Reykvíkingar 18 ára eða eldri valdir af handahófi úr viðhorfshópi Capacent Gallup. Þátttökuhlutfall var 60,2%. Spurt var: Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? En hvaða flokk eða lista er líklegast að þú myndir kjósa?Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?