Staða meirihlutans í Reykjavík hefur veikst samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Könnunin var gerð dagana 4. til 31. janúar. Gengið verður til kosninga laugardaginn 26. maí og þá verður borgarfulltrú- um fjölgað úr 15 í 23. Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins fær meirihlutinn 13 borgarfulltrúa en minnihlutinn 10.

Eftir kosningarnar í maí 2014 mynduðu Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG) og Píratar meirihluta. Flokkarnir fengu samtals 61,7% í kosningunum og 9 borgarfulltrúa af 15. Samkvæmt könnuninni er meirihlutinn nú með samtals 54,7%. Í könnun, sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið í júní á síðasta ári var meirihlutinn með 61,4%.

Björt framtíð að hverfa

Það sem skýrir fylgistap meirihlutans er sú staðreynd að Björt framtíð virðist vera að hverfa af pólitíska sviðinu. Flokkurinn fékk 15,6% í kosningunum fyrir fjórum árum en mælist nú einungis með 2,4% fylgi. Samfylkingin hefur einnig misst töluvert fylgi, Hún fékk 31,9% í kosningunum en mælist nú með 25,7%. Samfylkingin hefur aftur á móti bætt sig aðeins í samanburði við könnunina frá því í júní í fyrra en þá mældist hún með 22,3%.

VG og Píratar bæta upp fylgistap meirihlutans. VG, sem fékk 8,3% í kosningunum, mælist nú með 13,3%. Píratar fengu 5,9% í kosningunum en eru nú með 13,3% fylgi, eins og VG. Fylgi Pírata stendur nánast í stað í samanburði við könnunina í júní. VG dalar aftur á móti töluvert á milli þessara kannana því flokkurinn var með 20,8% í júní. Erfitt er að fullyrða hvað veldur þessu fylgistapi VG en hugsanlega hafa landsmálin áhrif, þ.e. sú staðreynd að VG fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .