Guðmundur Steingrímsson, annar formanna Bjartrar Framtíðar, hafnar þeirri tillögu sem Stefán Jón Hafstein kastaði fram á dögunum um að Björt Framtíð sameinist vinstri flokkunum í sveitarstjórnarkosningunum og bjóði fram sameinaðan lista. Þetta kom fram í Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

„Björt Framtíð er ekki stofnuð í þeim tilgangi að taka þátt í þessu tveggja turna tali. Þessari tvípóla pólitík,“ sagði Guðmundur meðal annars. „Pólitíkin verður þá keppni í því að koma sjálfstæðismönnum frá völdum eða sjálfstæðismenn að koma vinstri mönnum frá völdum. Málefnin gleymast," segir Guðmundur. Hann segir nauðsynlegt að menn komist út úr slíkri skotgrafarpólitík.