Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram frumvarp til Alþingis þar sem lagt er til að upplýsingar um laun og allar greiðslur til þingmanna verði gerðar opinberar og aðgengilegar fyrir almenning. Brynhildur Pétursdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Í frumvarpinu er sagt að margt sé óljóst um starfskjör alþingismanna, s.s. starfskostnað, akstursstyrki og dagpeninga einstakra þingmanna. Vakin er athygli á litlu trausti sem almenningur ber til Alþingis. Samkvæmt könnun Capacent Gallup í mars sl. bar einungis 18% svarenda mikið traust til Alþingis. Meirihluti svarenda, eða 60%, bar frekar lítið eða mjög lítið traust til Alþingis og um 16% sögðust alls ekkert traust bera til Alþingis.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ákvæðum laga um þingsköp Alþingis verði breytt til að upplýsingar um laun og allar greiðslur til þingmanna verði gerðar opinberar og aðgengilegar fyrir almenning. Með slíkum breytingum má gera ráð fyrir að gagnsæi starfa alþingismanna aukist og væri það liður í að auka traust almennings til Alþingis samkvæmt frumvarpinu.

Hér er hægt að lesa frumvarpið í heild sinni.