*

fimmtudagur, 20. júní 2019
Innlent 2. desember 2017 17:35

Björt sakar forystu VG um hræsni

Formaður Bjartrar framtíðar segir flokkinn hafa verið borinn út af vinstrimönnum og sakar Kjarnann og Stundina um slagsíðu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Björt Ólafsdóttir nýkjörinn formaður Bjartrar framtíðar segir að bakland flokksins hafi verið tilbúnara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma heldur en bakland Vinstri grænna nú.

„[A]ð mörgu leyti hefði okkar samstarf með Sjálfstæðisflokknum átt að koma minna á óvart – með okkar frjálslyndishugsjón – en með þeim sem jafnvel telja sig mestu sósíalista á Íslandi,“ segir Björt í samtali við Fréttablaðið.

„En miðað við það sem þingflokkur Vinstri grænna leyfði sér að segja þá, fólk eins og Svandís Svavarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Katrín Jakobsdóttir, finnst mér magnað að sjá þau ganga inn í þetta samstarf núna.“

Fjölmiðlarnir tóku hart á flokknum

Björt segir kjósendur VG og Samfylkingar hafa borið þingflokkinn út í kjölfar þess að Björt framtíð fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.

„Og þar spilaði margt inn í, eins og þeir miðlar sem hafa þessa vinstri-slagsíðu, miðlar á borð við Stundina og Kjarnann – þeir tóku hart á okkur,“ segir Björt en Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans gagnrýnir þessi orð á facebook síðu sinni og segir fjölmiðilinn ekki hafa vinstri slagsíðu heldur leggi áherslu á frjálslyndi, mannréttindi og alþjóðahyggju sem dæmi.

„En því fór sem fór. Hræsnin hins vegar er fólgin í því að núna sé eitthvað allt annað uppi á teningnum en var þá. Það er það sem manni finnst hvað mest þreytandi varðandi stjórnmálin. Það er eitt í dag en annað á morgun og svo er fólk bara vont ef það er að herma þessi orð upp á það.“

Kosið of snemma um stjórnarslit

Björt segir kosningaúrslitin hafa verið skell og að í baksýnisspeglinum sjái hún að of snemma hefði verið farið í kosningu innan flokksins um stjórnarslitin, betra hefði verið að bíða aðeins.

„Ég sagði við mitt fólk að ég vildi mæta á ríkisstjórnarfund og horfa í augun á mínum samráðherrum og segja þeim, augliti til auglitis, að ég væri á leiðinni út úr þessu samstarfi. En það var mikill hiti á þessum fundi. Tilfinningar,“ segir Björt um fundinn örlagaríka en eftir hann var tilkynnt um stjórnarslitin upp úr miðnætti. 

„Bjartrar framtíðar vildi út og ég skildi það bara mjög vel. Hefðum við átt að setjast niður og ræða málin lengur? Já. En það hefði ekki breytt niðurstöðunni.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is