Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að nú sé nóg komið og að það þurfi að loka kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík á meðan ákveðnir þættir séu kannaðir til fullnustu. Þetta segir Björt á Facebook síðu sinni , þar sem hún vísar til fréttar þess efnis að eldur braust út í verksmiðju United Silicon í Helguvík .

Björt nefnir fjóra þætti sem ættu að vera kannaðir til fullnustu, áður en kísilmálmversmiðjan fær að opna á ný, að hennar mati:

„Í fyrsta lagi, afhverju íbúar í grennd við hana upplifa einkenni sem að mengunarmælingar geta ekki útskýrt.

Í öðru lagi þarf að kanna vinnuaðstæður sérstaklega. Á sameiginlegum fundi fyrir umhverfis og samgöngunefnd lýsti forstjórinn því, aðspurður um hugsanlega hækkun á Arsen í andrúmslofti, að starfsmennn væru að opna út vegna þess að þeim væri svo heitt. Þessvegna losaðist út mengun beint af gólfinu sem að væri ekki búin að fara í gegn um reykhreinsikerfi. Hvað komast þessir sömu starfsmenn í mikla snertingu við alls konar óæskileg efni?

Í þriðja lagi þarf að kanna fjármögnun. Það er ljóst á öllu að fyrirtækið þarf fjármagn. Hverjir eru að bjóða það fram núna? Ég ætla rétt að vona að það séu ekki sameiginlegir sjóðir þeirra sömu landsmanna og ýta á að fyrirtækið loki

Í fjórða lagi er þessi fyrirsögn djók. Hvernig hafa starfsmenn nákvæmlega verið öruggir þegar eldsvoðinn í nótt braust út?“ segir Björt í færslunni á Facebook síðu sinni