Lögmenn Björns Leifssonar, eiganda World Class, telja ákvörðun heilbrigðisráðherra um að halda líkamsræktarstöðvum lokuðum en leyfa opnun „sambærilegrar starfsemi“ ólögmæta. Þetta kemur fram í erindum sem Björn sendi sóttvarnarlækni í október og ráðherrum í byrjun desember, sem hann greinir nú frá á Facebook .

Með bréfi Björns til yfirvalda fylgir álitsgerð Gests Jónssonar og Hilmars Gunnarssonar hæstaréttarlögmanna, sem hann leitaði til vegna málsins. Þar segja þeir einsýnt að sömu reglur skuli gilda um íþróttastarf, sund- og baðstaði, og líkamsræktarstöðvar, og vísað til fyrri ákvörðunar ráðherra þess efnis frá 19. október, þar sem hún hafi talið tillögu um annað ekki samræmast jafnræðis- og meðalhófsreglu.

Ef víkja eigi frá þeirri reglu og banna aðeins eina af ofangreindum tegundum starfsemi þurfi til þess „veigamikil málefnaleg sjónarmið“.

Ekki lokað í samanburðarlöndum
Björn segir ennfremur í bréfinu að hátt í 4 mánaða lokun líkamsræktarstöðva sinna á árinu hafi valdið félaginu sjálfu og hagaðilum tengdum því gríðarlegu tjóni. Hann hafi skilning á nauðsyn sóttvarnaraðgerða, en stöðvar hans séu vel til þess búnar að fylgja ítrustu sóttvarnarkröfum með einföldum hætti.

Þá vísar hann í reglur Norðurlandanna og annarra samanburðarlanda, hvar líkamsræktarstöðvar séu ekki lokaðar, jafnvel þar sem ástandið sé mun verra, til dæmis í Bretlandi.