Ketill Sigurjónsson segir í pistli á Orkublogginu að hann hafi verið varaður við, í gegnum þriðja mann, að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn hans málflutningi og væri að ráða almannatengsla til verksins. Við hann var m.a. sagt í júní 2015 „Þeir ætla sér að eyðileggja þig“.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ketill að hann hafi búist við mun harðari atlögu. „Það fóru að birtast greinar eftir menn og settar upp síður á Facebook þar sem átti að fara fram umræða um auðlindamál,“ segir Ketill.

„Það sem gerðist fyrst var að það var hamrað á því að álfyrirtækin væru ekkert að borga lágt verð og þau væru svo mikilvæg í efnahagslífinu. Það var líka verið að tala niður sæstrengshugmyndina, það var grundvallaratriði alveg fyrst. Henni var fundið allt til foráttu og það mátti helst ekki skoða hana.

Síðan kom í kjölfarið að hamrað var á því að verðið sem Landsvirkjun væri að selja orkuna á væri allt of hátt og stjórnarhættir hennar væru þeir verstu.

Síðan var iðulega vikið að mér og ég kallaður leigupenni Landsvirkjunar, sem er nátturulega vitleysa. En þetta gekk allt út á að gera mig tortryggilegan.“

Ketill tilkynnir í pistlinum að orkubloggið muni draga sig í hlé, en þar hefur hann birt pistla um orkumál síðastliðin átta ár.