Margir líta til bandaríska auðkýfingsins Warren Buffett sem fyrirmyndar í lífi sínu og reyna að fylgjast grannt með því hvar hann festir fé sitt til að uppskera eitthvað í líkingu við það sem hann gerir. Sérfræðingar bandaríska eignastýringarfyrirtækisins AQR Capital Management, sem rekur 16 sjóði, segjast nú hafa þróað kerfi sem beita má til að velja sömu eða sambærileg hlutabréf og Buffett.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal fjallar um málið á vefsíðu sinni. Þar er m.a. haft eftir sjóðsstjórum að árangur kerfisins sé svo góður að ávöxtun hlutabréfanna sem komu út úr valinu hafi verið betri en Warren Buffett náði út úr félögum sínum á árunum 1976 til 2011.

Í blaðinu segir að Bretar hafi tekið hugmyndinni opnum örmum enda hafi Buffett sagt eignir undirverðlagðar þar sökum dapurs ástands í efnahagsmálum.

Lesa má nánar um málið á vef Wall Street Journal .