*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 15. október 2014 11:00

Bjuggu til draumaferð til Íslands

Nýr áfangi vetrarherferðar markaðsverkefnisins „Ísland - allt árið“ hefur göngu sína í dag.

Ritstjórn

Nýr áfangi vetrarherferðar markaðsverkefnisins Ísland – allt árið er í dag formlega kynntur en verkefnið hófst með birtingu á nýju myndbandi á vef Youtube. Gerð myndbandsins hefur þegar vakið mikla athygli en 100 þúsund aðdáendur Íslands settu saman ferðaáætlun fyrir einn heppinn ferðamann sem valinn úr hópi um 4500 umsækjenda síðastliðinn vetur.

Ferðamaðurinn heppni er Jennifer Asmundson, matreiðslumeistari frá Bandaríkjunum, en hún er af íslensku bergi brotin. Afi Jennifer fluttist ungur til Ameríku og hafði sagt henni sögur af landi og þjóð þegar hún var barn. Þetta var hennar fyrsta ferð til Íslands.

„Þetta er ótrúlegt tækifæri,“ sagði Jennifer við komuna til landsins. „Afi minn var Íslendingur. Hann dó þegar ég var ung, áður en hann gat kennt mér neitt um tungumálið, eða íslenskar matarhefðir. Ég er mjög spennt að fræðast um Ísland, og læra um jarðhita og íslenskar matarvenjur og uppgötva leyndarmál Íslands frá fyrstu hendi.“

Myndbandið nefnist á ensku „The Ultimate Secret Tour“ og lýsir ferðalagi Jennifer um Ísland og þeim leyndardómum sem hún uppgötvaði hérlendis. Myndbandið er hluti af „Share the Secret“ herferð Ísland – allt árið sem upprunalega var sett af stað haustið 2013 undir formerkjum Inspired by Iceland.

Á ferðalaginu fékk Jennifer að upplifa ýmis ævintýri sem rúmlega 100.000 fararstjórar á samfélagsmiðlum Inspired by Iceland völdu fyrir hana. Má þar nefna hellaskoðun, jeppaferðir, listasöfn, sundlaugar, vélsleðaferðir á jöklum, sjósund, og mikilfengna fossa sem voru meðal viðfangsefna sem Jennifer fékk að upplifa, auk þess sem hún fékk að njóta íslenskrar matargerðar, sem henni sem matreiðslumeistara þótti með eindæmum góð.

Hægt er að horfa á myndbandið hér.