Bílaumboðið BL býður nú vaxta- og kostnaðarlaus lán til kaupa á nýjum bílum. Lánin geta að hámarki numið 40% af andvirði nýs bíls. Markaðsstjóri BL segir í samtali við Fréttablaðið, að talið sé að þessi möguleiki geti liðkað fyrir því að fólk kaupi sér nýjan bíl.

Fram kemur í Fréttablaðinu að að fólk sem hafi leitað til BL eigi orðið verulega upphæð í gamla bílnum sínum en veigri sér að skoða kaup á nýjum bíl vegna þess kostnaðar sem fylgi þeim lánum sem þeim standi til boða. Með vaxta- og kostnaðarlausum lánum sé óvissuþátturinn fjarlægður úr dæminu og viðskiptavinurinn þurfi bara að átta sig á hvaða upphæð hann geti greitt á mánuði. Hún haldist föst og óbreytt út lánstímann. Þá kemur fram í auglýsingum BL í fjölmiðlum í dag að lánin séu til allt að 36 mánaða.

Eins og VB.is greindi frá á föstudag í síðustu viku námu voru 7.267 nýir bílar seldir í fyrra samanborið við 7.896 árið 2012 en það jafngildir um 8% samdrætti á milli ára. Af þeim bílum sem seldir voru í fyrra keyptu einstaklingar 4.283 bíla samanborið við 4.311 árið 2012. Það er rétt um 0,6% samdráttur á milli ára.