Bláa Lónið hefur tryggt sér 22 milljón evra sambankalán, sem samasvarar tæpum tveimur milljörðum króna, segir í fréttatilkynningu.

Sparisjóðurinn í Keflavík hafði umsjón með láninu, en HSH Nordbank AG, Sparisjóður Mýrarsýslu, SPRON, Sparisjóður Hafnarfjarðar, Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóðabanki Íslands tóku einnig þátt í sambankaláninu.

Lánið verður nýtt til endurfjármögnunar á fjárfestingaláni fyrirtækisins og framkvæmda við Bláa Lónið.

Framkvæmdir við stækkun og endurhönnun Bláa Lónsins ? heilsulindar eru hafnar, en heilsulindin er í dag meðal þekktustu heilsulinda heims, segir í tilkynningunni.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, segir að tilgangur félagsins með stækkun og breytingum á heilsulindinni sé að auka enn frekar á upplifun gesta heilsulindarinnar.

Sparisjóðurinn í Keflavík, sem er í forsvari fyrir lánveitendur, er viðskiptabanki Bláa Lónsins.Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri SPKEF, sagði það ánægjulegt fyrir sparisjóðinn að geta veitt fyrirtækinu heildarþjónustu og komið með öflugum hætti að uppbyggingu þess.