Lesendur breska ferðatímaritsins Condé Nast Traveller völdu Bláa Lónið bestu náttúrulegu heilsulindina í könnun sem gerð var meðal þeirra. Af þessu tilefni fær Bláa lónið afhenta viðurkenningu við hátíðlega athöfn á Mandarin Oriental Hyde Park í London í dag.

Bláa lónið skaut ýmsum heimþekktum heilsulindum aftur fyrir sig en á listanum má finna ýmsar aðrar þekktar heilsulindir eins og Royal Park Evian í Frakklandi og Clinique La Prairie í Sviss. Þetta er í annað skipti sem verðlaunin eru veitt en í fyrra varð Bláa Lónið í áttunda sæti. "Þetta mikla stökk er staðfesting á því að Bláa Lónið hefur unnið sér sess sem einstök heilsulind á heimsmælikvarða, en lesendur gáfu Bláa Lóninu einmitt hæstu einkunn fyrir einstaka upplifun í einstöku náttúrulegu umhverfi. Þá hefur þróun nuddmeðferða ofan í lóninu og þróun á Blue Lagoon Iceland húðvörum einnig átt sinn þátt í að auka heildarupplifun gesta á Bláa Lóninu," segir í frétt frá Bláa lóninu.

Tímaritið Condé Nast Traveller er eitt virtasta ferðatímarit í heimi og tilheyrir hinni þekktu tímaritaútgáfu Condé Nast Magaine, sem gefur meðal annars út tímaritin Vogue, Glamour og Vanity Fair.