Bláa lónið, eitt stærsta ferðaþjónustufélag landsins, verður skráð á hlutabréfamarkað á fyrri hluta næsta árs. Þetta herma heimildir Innherja og Túrista.

Herma Innherja herma að boðað hafi verið til hluthafafundar klukkan 15 í dag þar sem frekari upplýsingar um skráningaráform verði veittar.

Stofnandi og forstjóri Bláa lónsins, Grímur Sæmundsen, er stærsti einstaki hluthafi félagsins. Allir helstu lífeyrissjóðir landsins eiga einnig stóran hlut í Bláa lóninu, sem og fjárfestingarfélagið Stoðir, sem keypti fyrir rúmu ári síðan 6,2% hlut í félaginu af Helga Magnússyni, eiganda Torgs.

Í vor keyptu Stoðir svo til viðbótar hlutafé fyrir 700 milljónir króna í Bláa lóninu og fór í kjölfarið með 7,3% eignarhlut. Í frétt Innherja kom fram að Bláa lónið hafi verið verðmetið á ríflega 60 milljarða króna í viðskiptunum.

Uppfært: Í tilkynningu staðfestir stjórn Bláa lónsins að hún hafi tekið ákvörðun um að hefja undirbúning að skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar. Félagið stefni á markað á næsta ári en endanleg ákvörðun verði háð framvindu undibúningsvinnu og eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.

Bláa lónið hefur ráðið til sín Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og Fossa fjárfestingarbanka til að hafa umsjón með þessu verkefni.