„Ég vil undirstrika sérstaklega að Bláa Lónið hf fékk engar skuldaafskriftir hjá bankastofnunum — og sóttist ekki eftir þeim,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Það var engin þörf á slíku. Félagið var með sterkt sjóðstreymi og sjálfbært til að takast á við sína skuldsetningu. Ákveðin staða fólst hins vegar í því að við höfðum breytt reikningshaldi okkar árið 2008 þannig að við gerðum reikningsskil í evrum, sem við gerum ennþá. Það var eðlileg ákvörðun í ljósi þess að tekjur okkar eru að stærstum hluta í erlendri mynt og fyrir hrun var meirihluti skulda okkar í evrum. Endurfjármögnunin sem við fengum frá Virðingu var hins vegar í íslenskum krónum, enda engan gjaldeyri að hafa til lánveitinga árið 2009. Þetta gerði það að verkum að meirihluti skulda okkar voru um nokkurn tíma í íslenskum krónum. Í fyrra tók Landsbankinn SpKef yfir og þá sömdum við um að viðskipti og lán færðust til Landsbankans. Landsbankinn fékk strax mikla trú á Bláa Lóninu hf og vildi vinna með félaginu til framtíðar. Við þennan flutning breyttum við fyrrgreindum skuldbindingum úr krónum í evrur og er því mjög gott jafnvægi í efnahagsreikningi okkar nú. Samstarf okkar við Landsbankann hefur síðan gengið mjög vel.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.