Bláa lónið mun fjármagna meginhluta kostnaðarins við endurbætur á Húsatóftavelli, sem er golfvöllur Golfklúbbs Grindavíkur, en kostnaður er áætlaður um 40 milljónir króna. Morgunblaðið greinir frá.

Húsatóftavöllur er 18 hola golfvöllur við veginn frá Grindavík og út á Reykjanes. Byggðar verða tvær nýjar brautir frá grunni. Þá verða gerðar fjórar nýjar flatir og þeirri fimmtu breytt verulega. »Þegar framkvæmdum lýkur, á árinu 2017, getum við sagt að meirihluti flatanna, 10 af 18, verði af 2012-árgerð eða nýrri,« segir Halldór E. Smárason, formaður golfklúbbsins í samtali við Morgunblaðið.

Áætlað er að þessar framkvæmdir ásamt göngustígum og öðrum umhverfisverkefnum kosti um 40 milljónir samtals. Bláa lónið leggur þessa fjárhæð fram á þremur árum. Bláa lónið hefur hafið framkvæmdir við stækkun upplifunarsvæðis lónsins og byggingu nýs hágæða hótels. Verður golfvöllurinn liður í að veita gestum hótelsins afþreyingu um leið og vonast er til að fleiri gestir Bláa lónsins sæki Grindvíkinga heim.