Hagnaður Bláa lónsins eftir skatta vegna ársins 2013 nam 1.352 milljónum króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var 2.127 milljónir króna. Þetta kemur fram í reikningsuppgjöri fyrirtækisins fyrir síðasta ár.

Aðrar niðurstöður uppgjörsins sýna að eiginfjárhlutfall félagsins var 30%. Handbært fé frá rekstri var 1.809 milljónir króna og nema eignir félagsins 7.272 milljónum. Einnig kemur fram að á aðalfundi félagsins sem haldinn var 4. apríl sl. hafi arðgreiðsla til hluthafa að fjárhæð 931,2 milljónir króna verið samþykkt.

„Vöxtur Bláa lónsins undanfarin ár hefur verið í takti við þróun ferðaþjónustunnar sem í dag aflar þjóðinni meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur atvinnugrein. Nýtt met var sett í fjölda gesta árið 2013 þegar 647 þúsund gestir heimsóttu Bláa lónið. Sumarið 2013 störfuðu 330 manns hjá Bláa lóninu,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.