*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 23. mars 2020 11:09

Bláa lónið lokar fram í maí

Allar starfsstöðvar loka, en félagið mun einbeita sér að innri verkefnum meðan á lokuninni stendur.

Ritstjórn
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Haraldur Guðjónsson

Bláa lónið hefur lokað öllum starfsstöðvum sínum út aprílmánuð frá og með deginum í dag í ljósi heimsfaraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Starfsstöðvarnar sem um ræðir eru í Svartsengi (Grindavík), á Laugavegi og á Keflavíkurflugvelli. Starfsemi félagsins stöðvast þó ekki með öllu, en samkvæmt tilkynningunni mun það einbeita sér að innri verkefnum, viðhaldsmálum, viðskiptaþróunarmálum, stafrænni þróun og markaðsmálum, með það að markmiði að vera „tilbúið í öfluga viðspyrnu“ að lokun lokinni.

„Á tímum sem þessum er mikilvægt að við stöndum saman og gerum það sem í okkar valdi stendur til að hefta útbreiðslu Covid-19. Við vonumst til að hægt verði að opna fyrr en útilokum þó ekki framlengingu lokunar. Það mun koma í ljós eftir því sem þróuninni vindur fram hérlendis og ekki síður erlendis næstu vikur en um 98% af gestum Bláa Lónsins eru erlendir ferðamenn.

Hvað varðar áhrif lokunarinnar á störf þá verður reynt að verja þau eins og hægt er. Verið er að meta stöðuna þessa stundina en horft verður til úrræðis ríkisstjórnarinnar um greiðslu atvinnuleysisbóta vegna minnkandi starfshlutfalls,“ er haft eftir Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins.