Bláa lónið er 57 milljarða króna virði sé miðað við kaupverð í viðskiptum með Hvatningu sem á tæplega 40% hlut í Bláa lóninu. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, bauðst til að kaupa hlut framtakssjóðsins Horns II í Hvatningu í lok síðasta árs. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Horns II nam kaupverðið 11,1 milljarði króna en óbeinn hlutur Horns í Bláa lóninu nam 19,3%.

Eigendur Horns II, sem eru að mestu lífeyrissjóðir, höfðu forkaupsrétt í viðskiptunum sem þeir nýttu sér flestir og keyptu hlutinn í Bláa lóninu sjálfir af Horni II.

Áætla má að Bláa lónið sé verðmætasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins miðað við verðmatið en til samanburðar er markaðsvirði Icelandair Group, eina skráða ferðaþjónustufyrirtækisins hér á landi, 46 milljarðar króna.