Bláa Lónið hlaut Íslensku þekkingarverðlaunin í ár en Bláa Lónið ásamt Icelandair Group og Truenorth voru tilnefnd til þekkingarverðlauna Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH). Þá var Katrín Olga Jóhannesdóttir valin viðskiptafræðingur ársins 2012. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin.

Í niðurstöðu dómnefndar um Íslensku þekkingarverðlaunin á vegum FVH segir m.a. að við valið á þekkingarfyrirtæki ársins var haft til hliðsjónar hvernig framtíðarsýn, stefna og gildi fyrirtækisins endurspeglist í þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð á undanförnum árum. Einnig var horft til samfélagslegrar ábyrgðar og góðra stjórnarhátta. Mælanlegur árangur á borð við fjárhagslega frammistöðu, ánægju viðskiptavina, skilvirkni í innri ferlum og árangur í mannauðsmálum var einnig hafður að leiðarljósi.

Þá valdi FVH viðskiptafræðing eða hagfræðing ársins í ellefta sinn. Í ár var Katrín Olga Jóhannesdóttir valin viðskiptafræðingur ársins 2012.

Katrín Olga er starfandi stjórnarformaður Já upplýsingaveitna, þar sem hún er einn eigenda. Katrín Olga er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1987. Hún lauk Cand.Merc prófi frá Odense Universitet 1989 og bætti við námi í Corporate Finance í London Business School 2007.

Katrín Olga situr í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og stofnana og má þar helst nefna stjórn Viðskiptaráðs, stjórn Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, Bankaráði Seðlabanka Íslands, Háskólaráði Háskólans í Reykjavík og stjórn Icelandair Group. Þá tók Katrín Olga nýverið að sér varaformennsku í Samráðsvettvangi um leið Íslands til aukinnar hagsældar. Áður starfaði Katrín Olga um árabil sem framkvæmdastjóri hjá Símanum og Skiptum, móðurfélagi Símans.