„Tilgangurinn er að styrkja Bláa lónið sem einstæðan viðkomustað ferðamanna á heimsvísu. Við erum að treysta umgjörðina um starfsemina þannig að hún standi undir væntingum gesta,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, í samtali við Morgunblaðið .

Framkvæmdir munu hefjast við stækkun Bláa lónsins og byggingu lúxushótels í lok ársins, og er áætlað að uppbyggingunni verði lokið í byrjun árs 2017. Þannig verður athafnasvæði lónsins stækkað um helming auk þess sem núverandi upplifunarsvæði verður endurhannað. Á hótelinu er svo gert ráð fyrir 60 herbergjum, veitingastað og fjölnota fundarsal.

Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um sex milljarðar króna og munu um 150 starfsmenn starfa við verkefnið næstu tvö ár. Gert er ráð fyrir 100 nýjum störfum eftir breytingarnar og verða starfsmenn fyrirtækisins þá alls 400 talsins á ársgrundvelli.