*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 11. apríl 2018 12:34

Bláa lónið stofnar rútufyrirtæki

Destination Blue Lagoon mun í samstarfi við Hópbíla flytja farþega milli lónsins og Keflavíkurflugvallar.

Ritstjórn
Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa lónsins
Haraldur Guðjónsson

Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins sagði á morgunfundi Íslandsbanka um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu að félagið hygðist hefja sínar eigin rútuferðir milli lónsins og Keflavíkurflugvallar. Grímur sagði frá þessu í pallborðsumræðum á fundinum en þar sagði hann meðal annars að það þyrfti að vera til staðar skilvís aðgangsstýring á stærstu ferðamannastaðina.

„Eins og við höfum gert í Bláa lóninu með frábærum árangri,“ sagði hann en hann segir að í stafrænu þróuninni felist tækifæri í að þróa rekstur ferðaþjónustufyrirtækja.

„Vegna þessarar aðgangsstýringar og þeirrar stafrænu þróunar sem hún hefur leitt af sér, erum við að... fara að taka yfir akstur til og frá Bláa lóninu og sinna honum sjálf og hefja þá ferðalag okkar gesta til okkar strax og þeir koma í rútuna. Þetta er alveg skilgetið afkvæmi þeirrar stafrænu þróunar sem við stöndum nú í sem er að opna ný tækifæri.“

Lagt er upp með að ferðirnar verði á klukkutíma fresti en í dag bjóða Kynnisferðir og Gray line upp á slíkar ferðir til og frá lóninu. Hyggst Bláa lónið stofna sérstakt félag, Destination Blue Lagoon, um ferðirnar í samstarfi við Hópbíla að því er mbl.is segir frá.
Félagið verður að meirihluta í eigu Bláa lónsins, en dótturfélag Hópbíla, Airport Direct ehf. verður samstarfsaðilinn.