*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 31. mars 2021 07:03

Bláa lónið tapaði 3,2 milljörðum

Bláa lónið var rekið með tapi í fyrra í fyrsta sinn í áratug enda var lónið lokað hálft árið. Lífeyrissjóðir færa niður virði félagsins.

Ingvar Haraldsson
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Haraldur Guðjónsson

Bláa lónið var rekið með tapi í fyrra í fyrsta sinn í áratug. Heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á reksturinn en lónið var lokað nærri helming ársins 2020 og í um sjö mánuði af síðustu tólf.

Félagið tapaði 20,7 milljónum evra, eða um 3,2 milljörðum króna, á síðasta ári eftir 22 milljóna evra hagnað árið 2019, eða um 3,3 milljarða króna hagnað, miðað við meðalgengi hvors árs, en félagið gerir upp í evrum.

Lokað og kostnaður lækkaður

Rekstrartekjur félagsins drógust saman um 74% á síðasta ári, úr um 17 milljörðum í um 5 milljarða króna, en samdrátturinn nam 87% frá því að faraldurinn hófst í mars og til áramóta samkvæmt nýbirtri ársskýrslu félagsins. Gestum Bláa lónsins fækkaði um 76% á árinu. Félagið brást við með því að skera niður kostnað en rekstrargjöld félagsins lækkuðu um helming og námu um 7 milljörðum króna í fyrra. 

Lífeyrissjóðir færa niður eignarhlut

Lífeyrissjóður verzlunarmanna lækkaði verðmat sitt á óbeinum hlut sínum í Bláa lóninu um 16% og Almenni lífeyrissjóðurinn um 10% samkvæmt ársskýrslu lífeyrissjóðanna. Félögin eru meðal hluthafa í Hvatningu og Blávarma, tveggja stærstu hluthafa Bláa lónsins. Áætla má að virði Bláa lónsins hafi lækkað úr um 47 milljörðum króna í um 41 milljarð króna hjá Almenna lífeyrissjóðnum og í um 39 milljarða króna hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Þrátt fyrir niðurfærsluna hefur virði Bláa lónsins margfaldast á síðustu árum en félagið var metið á um fjóra milljarða króna árið 2007.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér