Árleg verðlaunaafhending félags viðskipskiptafræðinga og hagfræðinga á þekkingarfyrirtæki ársins fór fram í gær, þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Bláa lóninu verðlaun sem þekkingarfyrirtæki ársins.

Í ár var þema verðlaunanna „fagmennska og færni í ferðaþjónustu,“ en auk Bláa lónsins voru Norðursigling og Íslenskir fjallaleiðsögumenn tilnefndir til verðlaunanna.

Útlitið ekki jafn svart og sýndist

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ræddi stöðu ferðaþjónustunnar við afhendinguna sem hann sagði standa á tímamótum að því er segir í fréttatilkynningu um verðlaunin.

„[Þ]etta er alltaf sama gamla sagan, við þurfum vissulega að vera á varðbergi en passa okkur þó að taka ekki einhverjar róttækar ákvarðanir sem eru byggðar á svörtustu sýninni,“ segir Guðni sem vildi meina að útlitið væri ekki alveg eins svart og það sýndist oft í fréttum og fyrirsögnum.