Bláa Lónið er fylgjandi einföldun virðisaukaskattkerfisins með breikkun virðisaukaskatts í neðra þrepi og niðurfellingu undanþága. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í gærkvöldi vegna umfjöllunar á Alþingi og í fjölmiðlum um baðstaðinn. Í tilkynningunni kemur einnig fram að þar sem enginn virðisaukaskattur sé innheimtur af aðgangseyri geti fyrirtækið ekki nýtt innskatt.

Bláa lónið er ekki eina fyrirtækið sem greiðir ekki virðisaukaskatt af aðgangseyri því sömu sögu er að segja af Jarðböðunum við Mývatn og Fontana á Laugarvatni. Baðstaðirnir eru undanþegnir skattinum á þeirri forsendu að þeir séu sundstaðir og þannig hefur það verið frá því að lög um virðisaukaskatt tóku gildi fyrir 25 árum.