Gengi bréfa í kanadíska félaginu BlackBerry hefur þrefaldast það sem af er ári. Þar af hækkaði það um 40% í gær. Þróunin hefur komið mörgum á óvart enda fá tíðindi borist sem gefa tilefni til þessa.

BlackBerry merkið er mörgum eflaust í fersku minni en fyrirtækið framleiddi á árum áður símtæki sem voru þá meðal þeirra vinsælustu. Það veðjaði hins vegar á rangan hest þegar aðrir framleiðendur færðu sig yfir í snertiskjái. Nú hefur áhersla félagsins færst frá símum í átt að ýmiskonar öryggisbúnaði.

Í gær seldist hluturinn um skeið á 20,15 dollara en það er hæsta verð sem bréfin hafa náð í tíu ár. Hækkunin gekk lítillega til baka fyrir lok viðskipta og nam dagshækkun örlítið meira en 30% þegar viðskiptum lauk. Heildarviðskipti námu rúmlega 180 milljón hlutum en það er tæplega sexfalt meðaltal síðustu þrjátíu daga.

„Félagið er ekki meðvitað um neinar upplýsingar eða þróun í málefnum eða viðskiptum þess, sem hafa ekki verið kunngjörð, sem gætu útskýrt hækkun á verði hlutanna eða umfang viðskipta með hluti í félaginu undanfarið,“ segir í svari BlackBerry við fyrirspurn kanadíska fjármálaeftirlitsins. Síðustu sjö daga hefur gengi bréfanna hækkað um 147% og tæp 260% síðustu þrjá mánuði.

Um miðjan þennan mánuð tilkynnti félagið að það hefði náð samkomulagi við Facebook í einkaleyfadeilu sem hafði staðið yfir í rúm tvö ár. Engar upplýsingar um innihald sáttarinnar hafa komið fram. Skömmu síðar tilkynnti félagið að það hefði selt 90 einkaleyfi til kínverska fjarskiptarisana Huawei og lét fylgja með sögunni að einkaleyfin hefðu ekki nýst í rekstri BlackBerry.

Síðasta ársfjórðungsuppgjör BlackBerry var kunngjört í desember en þriðja ársfjórðungi í reikningsári félagsins lauk í nóvember. Þar kom fram að tekjur hefðu fallið um 18% frá fyrra ári og að tapið hefði numið 130 milljónum dollara. Greiningaraðilar veðja á að tekjur fjórða ársfjórðungs muni nema 246 milljónum dollara og að félagið muni skila hagnaði sem nemi um þremur sentum á hlutinn.