Farsímafyrirtækið BlackBerry Ltd. mun hefja samstarf við kanadísk yfirvöld á næsta ári. Markmið samstarfsins er að reisa rannsóknarmiðstöð sem á að sérhæfa sig í rannsóknum á sjálfkeyrandi bílum.

John Chen, forstjóri BlackBerry, tilkynnti tíðindin ásamt forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, í Ottawa, Ontario. Ríkið mun ekki koma til með að styrkja verkefnið fjárhagslega, en það gæti þó breyst þegar lengra er haldið.

Dótturfyrirtæki BlackBerry, QNX, hefur verið að hanna hugbúnað sem bílaframleiðendur eiga að geta nýtt sér í framtíðinni. Þetta tiltekna fyrirtæki ætti því að geta notið góðs af samstarfinu og rannsóknarmiðstöðinni.

Önnur tæknifyrirtæki hafa verið í svipaðri sókn og hefur Apple verið að ráða til sín sérfræðinga á þessu sviði. Google og Uber virðast þó eiga smávægilegt forskot á aðra framleiðendur.