Hlutabréf í Kanadíska fyrirtækinu BlackBerry hafa hækkað um 8% í dag eftir að greiningarfyrirtælið Citron Research gaf það út að yfirtaka á félaginu væri líkleg. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg . Hefur gengi hlutabréfa BlackBerry ekki verið hærra í tvö ár.

Segir Citron að að öryggishugbúnaður sem BlackBerry hefur þróað fyrir bílaiðnaðinn geti valdið straumhvörfum í þróun á sjálfkeyrandi bílum. Í skýrslunni segir einnig að að öryggisbúnaðurinn sé nú þegar í 60 milljón bílum. Segir Citron að QNX hugbúnaður Blackberry sé án nokkurs vafa sá öruggasti sem í boði er í dag. Meðal núverandi viðskiptavina fyrirtækisins eru bílarisar á borð við Mercedes-Benz, BMW og Toyota.

Blackberry sem flestir þekkja sem framleiðanda á farsímum hefur á síðustu þremur árum farið í gegn um  mikla endurskipulagningu og stefnubreytingu undir stjórn núverandi forstjóra John Chen. Fyrirtækið hefur í dag lagt niður alla farsímaframleiðslu og felst starfsemi þess nú í þjónustu og þróun á hugbúnaði auk sérhæfingar í  Interneti hlutanna (e. Internet of things).

Í frétt Bloomberg segir að  hvort Blackberry muni rísa til sömu hæða og þegar farsímaframleiðsla þeirra stóð sem hæst verði tíminn einn að leiða í ljós. Þar skipti mestu máli hvort að forstjóra fyrirtækisins takist að halda núverandi vexti áfram auk þess sem hraði í þróun og notkun sjálfkeyrandi bíla skipti miklu máli.