Kanadíski farsímaframleiðandinn BlackBerry tapaði 4,4 milljörðum dala, jafnvirði 510 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er langtum meira tap en gert hafði verið ráð fyrir.

Tekjur fyrirtækisins drógust saman um meira en 50% á milli ára. Þær námu 1,2 milljörðum dala á fjórðungnum borið saman við 2,7 milljarða á þriðja fjórðungi í fyrra. Búist var við því að tekjur myndu nema 1,66 milljörðum dala.

Gengi hlutabréfa BlackBerry féll um tæp 7% áður en viðskipti hófust á hlutabréfamarkaði í dag. Eftir að viðskipti hófust ruku þau hins vegar upp um 14%.

Talsverður vandræðagangur hefur einkennt rekstur BlackBerry síðustu misserin. Forstjórinn Thorsten Heins sem hafði sett allan kraft í þróun á nýjum snjallsíma sem átti að endurheimta fyrri stöðu farsímafyrirtækisins seldist talsvert minna en búist var við. Þá var sömuleiðis um stundarsakir unnið að því að stærsti hluthafi fyrirtækisins myndi kaupa reksturinn með manni og mús. Frá því var hins vegar fallið. Í kjölfarið var forstjórinn látinn taka poka sinn ásamt öðrum lykilstjórnendum og nýir menn fengnir við stýrið.