Bandaríska eignarstýringarfyrirtækið BlackRock styrkti stöðu sína sem stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði árið 2019. Eignir í stýringu hjá fyrirtækinu námu í lok árs 7.430 milljörðum dollara og jukust um 1.450 milljarða á milli ára samkvæmt uppgjöri félagsins fyrir árið 2019 sem birt var eftir lokun markaða á miðvikudag.

Hækkun á virði eigna í stýringu hjá fyrirtækinu var vissulega keyrð áfram af góðu ári á mörkuðum en leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði S&P 500 hlutabréfavísitalan um 33%. Samt sem áður var met innflæði inn í sjóði fyrirtækisins á árinu sem nam 428,7 milljörðum dollara. Þarf af nam innflæði í iShares kauphallarsjóði fyrirtækisns 183 milljörðum dollara á árinu.

Hagnaður fyrirtækisins á árinu 2019 nam tæplega 4,5 milljörðum dollar og jókst um 4% á milli ára. Hagnaður á síðasta ársfjórðungi 2019 nam 1,3 milljörðum dollara og jókst um 40% milli ára auk þess sem hagnaður á hlut leiðrétt fyrir einskiptisliðum nam 8,34 dollurum á meðan greinendur höfðu að meðaltali gert ráð fyrir 7,69 dollara hagnaði á hlut samkvæmt Reuters .