Stærsta eignastýringarfyrirtæki heims, BlackRock, jók eignir í stýringu um 104 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Munaði þar mest um kauphallarsjóði (e. Exchange Traded Funds, ETFs) fyrirtækisins en fjárfestingar í þeim námu 74 milljörðum dollara á tímabilinu. Nemur heildarverðmæti eigna í stýringu hjá BlackRock nú 5.680 milljörðum dollara. Financial Times greinir frá.

Á sama tíma og önnur eignastýringarfyrirtæki horfa upp á lægri þóknanir vegna þjónustu sinnar tókst BlackRock að viðhalda framlegðarhlutfalli sínu á milli ára. Framlegðarhlutfall fyrirtækisins var 43,9% á öðrum ársfjórðungi sem er sama hlutfall og á sama tímabili í fyrra. Tókst fyrirtækinu að hækka hlutfallið um 0,5 prósentustig á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tíma í fyrra.

Tekjur félagsins jukust um 6% miðað við annan ársfjórðung 2016 og voru 2,9 milljarðar dollara. Hagnaður félagsins á tímabilinu jókst um 8% á milli ára og nam 860 milljónum dollara. Þá jókst hagnaður á hlut um 10% og var 5,24 dollarar á hlut. Þrátt fyrir þessar tölur hefur gengi hlutabréfa BlackRock lækkað um 3,4% það sem er degi.

Fyrr í dag sagði Larry Fink forstjóri fyrirtækisins að óveðurský væru til staðar í hagkerfi Bandaríkjanna. Sagði Fink að þrátt fyrir góða afkomu fyrirtækja þá hafi vöxtur í launum venjulegs fólks ekki fylgt í kjölfarið. Sagði hann einnig að hagvöxtur vestanhafs á öðrum ársfjórðungi yrði lægri en spár greiningaraðila gera almennt ráð fyrir.