Helstu kröfuhafar Kaupþings hafa fengið bandaríska fjárfestingafyrirtækið Blackstone til að vinna að nýjum nauðasamningi um tillögum að undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að til standi að senda beiðni um undanþágu til Seðlabankans á næstu vikum. Kaupþing óskaði síðast eftir undanþágu frá höftunum í nóvember 2012 til að greiða út gjaldeyri til kröfuhafa í samræmi við fyrirliggjandi nauðasamningsfrumvarp.

Blackstone var m.a. ráðgjafi fyrir hóp alþjóðlegra fjárfesta sem samþykkti í mars í hittifyrra að afskrifa um 70% af nafnvirði krafna sinna á gríska ríkið.

Morgunblaðið segir um málið ljóst að eigi Seðlabankanum að vera mögulega fært að veita Kaupþingi undanþágu þyrftu að koma tillögur um að krónueignir yrðu seldar fyrir gjaldeyri á verulegum afslætti, að lágmarki 75% miðað við Bingó-áætlun Seðlabankans.

Í búi Kaupþings eru 140 milljarða krónueignir. Blaðið rifjar upp að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi sagt að ekki komi til greina að veita undanþágur frá gjaldeyrishöftum á meðan ekki hafa komið fram útfærðar lausnir sem feli í sér að útgreiðsla á krónueignum til kröfuhafa hafi ekki neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð.