Bandaríska fjárfestingarfélagið Blackstone hefur samþykkt að kaupa Hilton hótelkeðjuna fyrir 1.250 milljarða króna ásamt skuldum, segir í frétt Reuters.

Blackstone mun greiða 47,50 Bandaríkjadali á hlut í reiðufé, sem er 32% hærra en lokagengi bréfanna í Kauphöllinni í New York á þriðjudaginn. Skömmu áður en tilkynnt var um tilboðið hækkuðu bréfin um 6,4% og luku í 36,05 Bandaríkjadölum. Á fyrsta ársfjórðungi greindi Hilton frá því að skuldir fyrirtækisins næmu 433 milljörðum króna.

Blackstone aflaði sér 250 milljarða króna þegar fyrirtækið var skráð á hlutabréfamarkað í síðasta mánuði. Fyrirtækið segist ætla að fjárfesta í eignum og vörumerki með það að markmiði að auka við vöxt fyrirtækisins.

Hóteliðnaðurinn hefur verið í miklum vexti undanfarin ár, þar sem stóraukin eftirspurn hefur gert hótelum kleift að hækka verðskrár sínar. Þar sem bygging nýrra hótela hefur verið takmörkuð hafa hótel orðið ákaflega eftirsótt markaðsvara. Greiningaraðilar telja að enn sé rúm til vaxtar á hótelmarkaði Bandaríkjanna, sem þekktur er fyrir hringamyndun.

Í eignasafni Blackstone er fyrir mikill fjöldi hótela, með yfir 100 þúsund herbergi í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hilton hótelkeðjan var stofnuð árið 1919 af Conrad Hilton. Dótturfélög Hilton Hotels eru meðal annars: Conrad Hotels & Resorts, Doubletree, Embassy Suites, Hampton Inn, Hilton Garden Inn, Hilton Grand Vacations, Homewood Suites og Waldorf-Astoria.