Blackstone hefur takmarkað úttektir úr 125 milljarða dala sjóðnum Blackstone Real Estate Income Trust (BREIT) sem sérhæfir sig í atvinnuhúsnæði. Hlutabréf Blackstone, sem er með ríflega hundrað milljarða dala markaðsvirði, féllu um meira en 7% í gær og hafa lækkað um 1,6% til viðbótar í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.

Blackstone samþykkti aðeins 43% af beiðnum fjárfesta um úttektir úr fasteignasjóðnum í nóvember, samkvæmt bréfi sem sent var til fjárfesta í gær. Hrein eign fasteignasjóðsins, þ.e. þegar búið er að taka tillit til skulda, nemur um 69 milljörðum dala eða sem nemur 9.750 milljörðum króna.

Í umfjöllun Financial Times segir að takmörkunin á úttektum sé merki um þá áhættu sem auðugir einstaklingar hafi tekið með fjárfestingum í hinum gríðarstóra fasteignasjóði Blackstone.

Samkvæmt heimildarmönnum FT voru um 70% af úttektarbeiðnum frá fjárfestum í Asíu þó að fjárfestar utan Bandaríkjanna eiga aðeins um 20% af hlutdeildarskírteinum BREIT. Einn sjóðstjóri segir að aðstæður á Asíumarkaði hafi sett þrýsting á fjárfesta sem þurfi nú fjármagn til að mæta skuldbindingum sínum.

Úttektarbeiðnir BREIT námu 1,8 milljörðum dala í október eða um 2,7% af hreinum eignum sjóðsins. Úttektir á fjórða ársfjórðungi eru þegar komnar yfir ársfjórðungslegt hámark.

Selja 50% í tveimur hótelum í Las Vegas

Blackstone tilkynnti í gær um sölu á 50% hlut í MGM Grand Las Vegas og Mandalay Bay Resort spilavítunum í Las Vegas fyrir 1,27 milljarða dala. Hótelin voru metin a 5 milljarða dala í viðskiptunum, þegar skuldir eru teknar með í reikninginn.

Söluandvirðið verður nýtt til að auka innleysanleika BREIT sjóðsins ásamt því að fjárfest verður í fasteignaflokkum, sem væntingar eru um að vaxi hraðar.