Bandaríska fjárfestingarfélagið Blackstone hefur varað við því að skuldsettum yfirtökum muni fækka verulega á næstu misserum vegna þess umróts sem einkennt hefur alþjóðlega fjármagnsmarkaði síðustu vikur. Til lengri tíma litið myndu hins vegar þessar breyttu aðstæður á markaði geta skila Blackstone auknum tekjum, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Á síðustu árum hafa fyrirtæki á borð við Blackstone, sem varð almenningshlutafélag síðastliðinn júní, notfært sér þann greiða aðgang sem hefur verið fyrir hendi að ódýru lánsfé á fjármagnsmarkaði til að ráðast í skuldsettar yfirtökur á öðrum félögum. Það sem af er þessu ári hafa yfirtökur og samrunar sem einkafjárfestingarsjóðir (e. private equity) hafa gert numið samtals 35% af heildarvirði allra slíkra samninga á hinum á bandarískum markaði - en fyrir fjórum árum síðan var þetta hlutfall aðeins 10%. En sá órói sem ríkt hefur fjármálamörkuðum síðustu vikur, sem á rætur sínar að rekja til þeirra miklu vanskila sem hafa orðið á svokölluðum áhættusömum bandarískum fasteignalánum (e. subprime) og jafnframt hækkandi stýrivöxtum, hafa aftur á móti gert það að verkum að það ástand sem stuðlaði að uppgangi slíkra einkafjárfestingarsjóða undanfarin ár er liðið undir lok um þessar mundir.

Mun einkum bitna á smærri fjárfestingarsjóðum
Tony James, forstjóri Blackstone, sagðist hins vegar telja að sökum stærðar sinnar á markaði þá væri Blackstone hvað einna best í stakk búið af einkafjárfestingarsjóðum til að eiga við þessar nýju kringumstæður. Bankar munu í sífellt minna mæli veita minni fjárfestingarsjóðum lán, sem hafa sérstaklega verið að spenna bogann mjög hátt í fjárfestingum sínum með því að taka svokölluð brúarlán. "Bankar eru að gefa út ný lán en þeir eru mun vandlátari en áður þegar kemur að því að velja viðskiptavini sína og halla sér nú fremur að stærstu og bestu viðskiptavinunum", segir James.

Forstjórinn gaf það einnig til kynna á fjölmiðafundi félagsins á mánudaginn að hið nýja umhverfi á fjármálamarkaði kallaði á nýja fjárfestingarstefnu af hálfu Blackstone: yfirtökur félagsins verða smærri í sniðum, fjárfest verður í auknum mæli í almenningshlutafélögum og lán keypt á afföllum.

Blackstone tilkynnti jafnframt á mánudaginn að hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi hefði numið 774 milljónum Bandaríkjadala, samanborið við 387 milljón dala hagnað fyrir ári síðan. Afkoman var töluvert yfir væntingum greiningaraðila, en tekjur Blackstone þrefölduðust sömuleiðis á fjórðungnum og voru samtals 973 milljónir dala.

Þegar viðskipti á hlutabréfamarkaði hófust með bréf í Blackstone í lok júnímánaðar stóð gengi bréfanna í 31dal. Þau lækkuðu fljótlega um 20% en í kjölfar afkomutilkynningar félagsins á mánudaginn hækkaði gengi bréfanna um 3% og stóðu í ríflega 26 dölum.