Þó að á ýmsu hafi gengið í fjölmiðlun á umliðnum árum hefur kannski sumt breyst minna með hruninu en búast hefði mátt við.

Blaðalestur í apríl
Blaðalestur í apríl
© None (None)

Þegar litið er til blaðalesturs á hverjum útgáfudegi helstu prentmiðla á höfuðborgarsvæðinu er hin feykilega sterka staða Fréttablaðsins mest áberandi. Þrátt fyrir að blaðið sé ekki lengur hluti af einni helstu fyrirtækjasamsteypu landsins og eigi því tæpast að njóta auglýsingafyrirgreiðslu þeirra, þá ber það höfuð og herðar yfir alla miðla aðra. Nú er til þess að líta að Fréttablaðið er fríblað og getur því ráðið lestrinum að nokkru marki með dreifingu. Dreifingin utan höfuðborgarsvæðisins er þannig mun minni, en þar búa víst neytendur líka.

Sú staðreynd að Fréttatíminn, vikulegt fríblað kemur þar næst, er af sömu rót runnin, en það er eftirtektarvert að hér á landi hafa fríblöðin lifað efnahagsþrengingar furðuvel af, en það er ekki raunin í flestum nágrannaríkjum okkar.

Nú segja hráar lestrartölur ekki alla sögu. Rannsóknir benda til þess að fólk lesi keypt blöð mun betur en fríblöð og að það eigi jafnframt við um auglýsingar þeirra. Morgunblaðsmenn hljóta þó að vilja gera betur, en spurningin er kannski fremur sú hvernig DV geti lifað þetta af. Lesturinn er sáralítill hjá blaði, sem gefur sig út fyrir að eiga erindi til allrar alþýðu manna, og hefur í þokkabót ekki miklar auglýsingatekjur. Helgarblað DV hlýtur að valda sérstökum vonbrigðum, en á árum áður var það mest lesna útgáfa DV og með langmestar tekjur, dró nánast hina útgáfudagana alla. Það er því ekki ósennilegt að á þeim vígstöðvum megi búast við breytingum innan skamms.