Þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir ákvað að hætta þingmennsku í byrjun þessa mánaðar tók Lúðvík Geirsson, fyrsti varamaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, sæti hennar. Litlu munaði reyndar að hann kæmist á þing í alþingiskosningunum í apríl 2009. Samkvæmt næstsíðustu tölum var hann inni sem uppbótarþingmaður en féll út þegarlokatölur birtust í Norðausturkjördæmi. Í stað hans fékk Jón Gunnarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, uppbótarsætið.

Vann lengi hjá BÍ

Lúðvík er fæddur árið 1959, er kvæntur og á þrjá syni. Hann tók stúdentspróf frá Flensborgarskólanum árið 1978 og útskrifaðist með BA í íslensku og bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1984. Hann var blaðamaður og síðar fréttastjóri á Þjóðviljanum frá 1979 til 1985. Næstu þrjú árin starfaði Lúðvík við ýmis fjölmiðla- og ritstörf í lausamennsku samhliða störfum fyrir Blaðamannafélag Íslands. Hann tók svo við formennsku í félaginu árið 1988 og varð síðar framkvæmdastjóri þess. Þar starfaði hann í 14 ár, eða fram til ársins 2002.

Bæjarstjóri í átta ár

Í sveitarstjórnarkosningunum árið 1994 var Lúðvík kjörinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Alþýðubandalagið. Fjórum árum síðar bauð hann sig fram fyrir hönd Fjarðarlistans og náði aftur kjöri. Fjarðarlistinn rann síðan inn í Samfylkinguna í lok október 1999 og Lúðvík leiddi lista flokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2002. Það ár náði Samfylkingin hreinum meirihluta í Hafnarfirði og Lúðvík varð bæjarstjóri. Hann sat sem slíkur í átta ár.

Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 ákvað Lúðvík að taka 6. sætið á lista Samfylkingarinnar og þar með baráttusætið. Flokkurinn fékk hins vegar fimm menn kjörna og Lúðvík náði því ekki inn í bæjarstjórn. Samfylkingin myndaði nýjan meirihluta með fulltrúa Vinstri grænna og samkomulag náðist um að Lúðvík gegndi embætti bæjarstjóra fram til júní 2012.

Ákvörðunin vakti deilur og í júlí 2010 ákvað Lúðvík að láta af störfum.

Afinn kenndi honum að baka

Oft hafa verið rifjuð upp ummæli sem Lúðvík lét hafa eftir sér í Vikublaðinu sáluga frá 19. maí 1997. Þar var hann spurður á hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit, lífs eða liðnum. Svar Lúðvíks var: „Lenín hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Hann var traustur foringi.“

Í umræddu viðtali, sem var fyrir dálk sem bar nafnið Áhrif, sagði Lúðvík einnig frá því að Leo Tolstoy og Þórbergur Þórðarson hefðu verið þeir rithöfundar sem höfðu mest áhrif á pólitískar skoðanir sínar. Þá uppljóstraði hann einnig um að móðurafi hans, Lúðvík Jónsson á Selfossi, hefði kennt honum margt, „m.a. að baka“.