Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði lesið yfirlýsingu á blaðamannafundi á Bessastöðum 20. febrúar 2011, þar sem fram kom að hann synjaði Icesave lögunum staðfestingar, bauð hann fréttafólki að spyrja sig spurninga. Þá gafst forsetanum tækifæri til að rökstyðja ákvörðun sína enn frekar. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna orðrétt handrit af fundinum.

Fréttamaður: Nú voru viðbrögðin erlendis frá mjög hörð fyrst eftir að þú tókst samskonar ákvörðun fyrir rúmu ári, óttastu viðbrögðin nú?

Ólafur Ragnar Grímsson : Ég held að margir, bæði erlendis og hér heima, hafi nú lært ákveðna lexíu á þessum tíma sem liðinn er, að þeir sem tóku djúpt í árina fyrstu dagana og jafnvel samdægurs þegar ég tók mína ákvörðun í janúar 2010 og voru eins og við vitum öll með miklar hrakspár um efnahagslegt hrun Íslands, efnahagslega einangrun Íslands, fordæminu Íslands í hinum alþjóðlega fjármálaheimi og ég veit ekki hvað og hvað, hrun krónunnar og ég veit ekki hvað og hvað. Allt þetta hefur sem betur fer reynst alrangt og mér fannst ánægjulegt til dæmis og merkilegt að lesa ágæta grein eftir forsætisráðherrann í Fréttablaðinu, ég held um þessa helgi, þar sem hún er að lýsa hinni glæsilegu þróun efnahagslífsins á síðasta ári og hvað það standi vel og það er svona önnur sýn en sett var fram, bæði af hálfu hennar og annarra fyrir rúmu ári síðan og ég hef nú kannski meira en aðrir Íslendingar átt samræður við erlenda fjölmiðla á undanförnum mánuðum og á síðasta ári um þetta mál og ég ber engan ótta í brjósti um það að það verði einhver alþjóðleg fordæming, þvert á móti þá held ég að menn muni skoða þessa ákvörðun og velta henni fyrir sér með tiltölulega jákvæðu hugarfari.

Fréttamaður : Ef ef ef ef... ...

Ólafur Ragnar Grímsson : Heyrðu má ég ekki taka þá sem ekki eru búnir að spyrja áður svo skulum við koma að þér á eftir.

Fréttamaður : Vel gert, þakka fyrir það, ég heiti Breki hérna á Stöð 2 og byrja á því að þakka þér fyrir að bjarga sunnudagsvaktinni hjá okkur hérna á fréttastofunni. Svona í ljósi þessar ákvörðunar þinnar ...

Ólafur Ragnar Grímsson : Fyrirgefðu ég náði þessu ekki alveg ...

Fréttamaður : Nei nei þetta var smá brandari.

Ólafur Ragnar Grímsson : Já.

Blaðamannafundinn í heild má lesa í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.