Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði lesið yfirlýsingu á blaðamannafundi á Bessastöðum 20. febrúar 2011, þar sem fram kom að hann synjaði Icesave lögunum staðfestingar, bauð hann fréttafólki að spyrja sig spurninga. Þá gafst forsetanum tækifæri til að rökstyðja ákvörðun sína enn frekar. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna orðrétt handrit af fundinum.

Fréttamaður : Hvernig metur þú næstu skref breta og Hollendinga ef að við fellum samninginn?

Ólafur Ragnar Grímsson : Ja bretar og Hollendingar eru og hafa sýnt það að þeir eru meðal elstu og virtustu lýðræðisþjóða í Evrópu, þeir virða lýðræðislega stjórnskipun okkar eins og þeirra eigin, þeir hafa sýnt það að mínum dómi á undanförnum mánuðum og misserum og það eru nýjar ríkisstjórnir í þessum löndum, að þeir vildu nálgast málið á annan hátt en fyrri ríkisstjórnir. Ég tel til dæmis að ný ríkisstjórn í bretlandi hafi nálgast þetta mál á allt annan og jákvæðari hátt heldur en, heldur en ríkisstjórn gordon brown og þess vegna held ég að innan þeirra vébanda sé mun víðtækari og ríkari skilningur á sjónarmiðum Íslendinga og stöðu málsins.

Auðvitað get ég ekkert fullyrt nákvæmlega um það hvað þeir munu gera en ég vona að þeir muni íhuga þessa stöðu og fylgjast grannt með henni. Auðvitað erum við ekkert að slá því föstu hér að þjóðin muni hafna þessum samningum í þjóðaratkvæðagreiðslu, ég bendi nú mönnum á það. Það eru stjórnmálaflokkar, allur þorri þingmanna þeirra sem hafa um 80% fylgi í landinu sem stóðu á bak við þessa ákvörðun á Alþingi, þannig að mér finnst alltof snemmt að gefa sér það hér og nú að þetta verði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu.