Í byrjun mánaðarins hélt frystitogarinn Blængur NK til veiða í Barentshafinu. Skipið má fiska um 1.200 tonn á Barentshafsmiðum og var í upphafi gert ráð fyrir að það kæmi til Neskaupstaðar að lokinni veiðiferðinni fyrir miðjan júlí.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra í gær og spurði hvernig veiðiferðin gengi.

„Það er ekki hægt að segja annað en að hún gangi vel. Fiskiríið hefur verið framar vonum og veðrið hefur að langmestu leyti verið gott. Við erum núna að veiða talsvert fyrir austan Múrmansk og erum skammt frá 12 mílna línunni. Aflinn hefur verið jafn og góður og við erum komnir með um 850 tonn upp úr sjó. Þetta er að langmestu leyti stór og góður þorskur.

Þetta er miklu betri veiði en var hér í fyrra og eins gengur vinnslan um borð sífellt betur hjá okkur. Við höfum komist upp í að vinna 80 tonn á sólarhring. Að loknum yfirstandandi sólarhring má gera ráð fyrir að verðmæti aflans í veiðiferðinni sé um 300 milljónir og það er ekki hægt annað en að vera ánægður með það,“ segir Bjarni Ólafur.