Bandaríski sjóherinn hóf í gær að sýna mátt sinn og megin í Persaflóa þegar umsvifamiklar heræfingar hófust. Tvær árásasveitir bandaríska flotans taka þátt í æfingunum ásamt meira en hundrað orrustuþotum, sem æfðu árásarferðir rétt fyrir utan Íransstrendur í gær. Æfingarnar hófust aðeins fjórum dögum eftir að írönsk yfirvöld handsömuðu fimmtán breska hermenn en klerkastjórnin heldur því fram að þeir hafi siglt inn í landhelgina án leyfis. Bresk stjórnvöld segja hins vegar að staðsetningarbúnaður sýni að þeir hafi verið í íraskri lögsögu þegar þeir voru handsamaðir. Þessi atburðarrás hefur aukið enn á spennuna sem ríkir vegna kjarnorkuáforma klerkastjórnarinnar en hún endurspeglast meðal annars í því að olíuverð á heimsmarkaði hefur ekki verið hærra á árinu.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, varaði klerkastjórnina við því að ef hermennirnir yrðu ekki leystir úr haldi kynni deilan vegna kjarnorkuáætlunarinnar færast á "nýtt stig". Margrét Beckett utanríkisráðherra segir að klerkastjórnin eigi að sanna að hermennirnir séu heilir á húfi með því að leyfa breskum stjórnvöldum að fá aðgengi að þeim. Hún segir jafnframt að hótanir stjórnvalda um að þeir verði kærðir fyrir njósnir séu fráleitar þar sem að þeir hafi verið á írösku hafsvæði í fullu leyfi stjórnvalda í Bagdad.

Stjórnmálaskýrendur greinir á um hvað írönskum stjórnvöldum gengur til með haldi bresku hermannanna. Sumir telja að harðlínumenn meti stöðuna á þá leið að varðhald bresku hermannanna styrki samningstöðu klerkastjórnarinnar í kjarnorkudeilunni. Aðrir halda að málið sé til marks um ráðaleysi stjórnvalda og benda á að vísbendingar séu um að hófsamari öfl telji að stefna forseta landsins, Mahmoud Ahmadinejad, muni leiða í besta falli til frekari einangrunar á alþjóðavettvangi auk áframhaldandi refsiaðgerða sem gætu haft lamandi áhrif á brothætt hagkerfi landsins og í versta falli til vopnaðra átaka.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á dögunum frekari þvingunaraðgerðir og er sú sátt sem náðist meðal stórveldanna um framkvæmd þeirra talin til marks að rússnesk stjórnvöld, sem hafa verið hliðholl Írönum, hafi vaxandi áhyggjur af framgöngu klerkastjórnarinnar.