Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, reyndi í gær að sannfæra Evrópuþingmenn um að styðja samkomulagið um hin nýju fjárlög Evrópusambandsins og varði umdeildar ákvarðanir sínar á sex mánaða forsetatíð Breta í sambandinu. Hann sagði að samkomulagið hefði verið hið besta sem hægt hefði verið að ná miðað við aðstæður. Það hefði tryggt jafnræði milli landa og gert kleift að ná Evrópu upp úr því lömunarástandi sem ríkti um þessar mundir. Hann hélt því staðfastlega fram, að þegar fram í sækti myndi koma í ljós að samkomulagið hefði verið gríðarlega mikilvægt.

Blair lagði áherslu á nokkur atriði sem hann sagði standa upp úr frá forsetatíð Breta: Árangur í málefnum sem snertu aðild Tyrklands og Króatíu að sambandinu, samkomulag um aðgerðir til að efla atvinnu og hagvöxt, meiri þróunaraðstoð og aðgerðir til að berjast gegn hryðjuverkum og loftslagsbreytingum. Aðalverkefni hans var hins vegar að vinna stuðning við samkomulag um fjárlög, sem náðist um síðustu helgi.

Lítið var klappað fyrir samkomulaginu á Evrópuþinginu, þar sem margir þingmenn eru fulltrúar nýrra aðildarríkja, sem eru reiðir yfir minnkandi þróunarframlögum. Blair hefur líka verið gagnrýndur hinum megin frá, en hann vísaði sjónarmiðum þeirra sem efast um Evrópusamvinnuna á bug. "Þetta er árið 2005, ekki 1945. Við erum ekki að berjast hvert við annað lengur. Þetta eru félagar okkar," sagði hann.