*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 4. mars 2018 12:01

Bláköld hagsmunagæsla

Forstöðumaður hjá SA óttast að dulbúnar aðgangshindranir leysi lögverndaðar hindranir af hólmi á leigubílamarkaði.

Snorri Páll Gunnarsson
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins segir hið opinbera hafa staðið vörð um sérhagsmuni leigubílstjóra á kostnað þjóðfélagsins í áratugi. Hann óttast að ný löggjöf um leigubifreiðar muni innihalda dulbúnar aðgangshindranir, svo sem kröfu um gjaldmæla. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að tækniþróun og nýjar aðferðir til gjaldtöku geti opnað fyrir samkeppni á leigubílamarkaði.

„Framboðsstýring ríkisins á leigubílamarkaði leiðir einfaldlega til þess að verð á leigubílaþjónustu er of hátt og fjöldi leigubíla í umferðinni of lítill. Þar sem eftirspurn og framboð eftir leigubílaþjónustu ákvarðast ekki á markaði og samkeppni er takmörkuð skapast glataður ábati fyrir neytendur. Þar að auki er enginn hvati fyrir menn að standa sig og keppa um gæði þjónustunnar. Þannig hefur hið opinbera staðið vörð um sérhagsmuni nokkurra hundrað einstaklinga á kostnað þjóðfélagsins alls,“ segir Davíð.

„Hins vegar er grátlegt að það hafi þurft að koma til þess að EES segi okkur að við verðum að afnema þessar aðgangshindranir. Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki að afnema þær að eigin frumkvæði. Ég óttast að menn ætli að lauma inn einhverjum dulbúnum aðgangshindrunum í lögin í staðinn fyrir fjöldatakmarkanir og stöðvarskyldu, eins og löggiltum gjaldmælum í bílum. Það má alls ekki gerast, því þá mun ekkert breytast,“ segir Davíð.

Taka þurfi tækniþróun opnum örmum

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir leigubílamarkaðinn fákeppnismarkað sem einkennist af lögvernduðum aðgangshindrunum. 

„Eins og við höfum áður bent á þá er gríðarlega mikilvægt að kraftar samkeppni fái að njóta sín á þessum markaði eins og öðrum, því með virkri samkeppni er stuðlað að lægra verði og bættri þjónustu,“ segir Páll.

Páll segir Samkeppniseftirlitið ekki hafa tekið sérstaka afstöðu til þess hvort að gjaldmælar teljist aðgangshindrun, en farveitur á borð við Uber notast við snjallsímaforrit í stað gjaldmæla til að reikna út kostnað. Hann segir hins vegar mikilvægt að nýta tækifærin sem felast í tækniþróun til að auka samkeppni.

„Þetta er eitt af því sem þarf að skoða, meðal annars út frá tækniþróun og nýjum aðferðum til gjaldtöku. Leigubílamarkaðurinn er dæmi um markað þar sem tækninýjungar hafa almennt opnað fyrir aukna samkeppni. Af hverju ættum við ekki að nýta þau tækifæri?“ segir Páll.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is