Netsölu- og markaðsvefurinn Bland.is hóf að rukka söluprósentu af vörum samhliða því sem notendur síðunnar gafst kostur á að selja vöru með uppboðsleið eða „kaupa núna“ á vefsíðu fyrirtækisins í mars síðastliðnum. Þókunin nemur 2-6% af söluandvirði þeirrar vöru sem í boði er. Hæsta söluþókunin er fyrir ódýrustu vörurnar en sú minnsta fyrir vörur yfir 100 þúsund krónum. Þókunin er þó aldrei lægri en 50 krónur og aldrei hærri en 7.900 krónur, samkvæmt upplýsingum frá Bland.

Katrín Jónsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Bland segir í svörum við fyrirspurn VB.is notendur hafa tekið vel í breytinguna þótt byrjað hafi verið að taka söluþóknun.

„Við höfum nær eingöngu fengið jákvæð viðbrögð við því að nú sé hægt að selja vörur á uppboði. Notendur kippa sér ekki upp við það að borga t.d. 1.000 krónur fyrir að selja rúm fyrir 50.000 sem ókeypis var að setja inn til að byrja með,“ segir hún en bendir á að ókeypis sé að setja inn auglýsingu. Söluþóknun bætist ekki við fyrr en varan selst.

Þurfa að kynna uppboðið betur

Í hverjum mánuði eru 50 þúsund nýjar heimsóknir skráðar í hverjum mánuði og eru sölurnar 70 þúsund talsins, samkvæmt upplýsingum Katrínar.

„Við sjáum einnig vöxt í bæði heimsóknum og aðgerðum inn á Bland.is. Auglýsingum fjölgar og notendur eru að notfæra sér kerfið okkar æ meira. Við sjáum hins vegar að við þurfum að útskýra betur fyrir fólki hvernig uppboð virkar á Bland. Aðilar eru spenntir fyrir uppboðunum en smeykir við að setja vörur á uppboð og velja því frekar venjulega auglýsingu og þá „Kaupa núna“ möguleikann.  Að setja vörur á uppboð er bæði spennandi, þægilegt og skemmtilegt. Ekki þarf stöðugt að fylgjast með tilboðum heldur hinkrar róleg/ur þar til uppboði lýkur,“ segir Katrín í svari sínu við fyrirspurn VB.is.