Efling – stéttarfélag kynnir til sögunnar nýtt svið – félagssvið (e. Organizing Division).

„Hlutverk þess er fyrst og fremst að blása nýju lífi í herskáa stéttabaráttu með virkri þátttöku félagsmanna sjálfra. Ætlunin er þannig að mynda aukið mótvægi gegn síauknum yfirráðum fyrirtækjaeigenda í samfélaginu," segir í tilkynningu frá Eflingu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður: „Verkalýðshreyfingin hefur of lengi verið föst í því að bregðast við vandamálunum eftir á og er orðin of mikil þjónustustofnun. Félagssvið Eflingar er hugsað til að snúa vörn í sókn og ganga lengra í að virkja félagsmenn í baráttunni en hefur þekkst áratugum saman. Ég er gríðarlega stolt af félagssviði Eflingar og veit að það mun veita okkur mikinn styrk í kjarabaráttu næstu ára.“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar: „Félagssvið er líklega stærsta nýjungin í starfi Eflingar síðan ný forysta tók við í vor. Um leið og við styrkjum reglubundna þjónustu okkar við félagsmenn á sviðum sem fyrir eru, mun félagssvið auka virkni félagsmanna sjálfra í stéttabaráttunni. Vonandi ryður félagssvið Eflingar braut fyrir stóreflda baráttu víðar í hreyfingunni og í samfélaginu.“