*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 23. mars 2020 07:03

Blása til sóknar

NeckCare og K!M ehf. hefja samstarf. Kim De Roy, fyrrverandi yfirmaður hjá Össuri, verður hluthafi og sest í stjórn félagsins.

Sveinn Ólafur Melsted
Þorsteinn Geirsson, framkvæmdastjóri NeckCare Holding, og Kim De Roy, stofnandi K!M, undirrituðu samstarfssamninginn á dögunum.
Aðsend mynd

Félögin NeckCare Holding ehf. og K!M ehf. hafa undirritað samstarfssamning sem felur í sér að K!M ehf. verður hluthafi í NeckCare Holding ehf. Mun Kim De Roy, stofnandi K!M ehf., taka sæti í stjórn NeckCare Holding. Kim starfaði áður hjá Össuri, síðast sem forstöðumaður rannsóknar og þróunar, en hann hafði gegnt hinum ýmsu stöðum innan fyrirtækisins í um sautján ár áður en hann lét af störfum undir lok síðasta árs. Kim og Þorsteinn Geirsson, framkvæmdastjóri NeckCare Holding, undirrituðu samstarfssamninginn á dögunum og að sögn Þorsteins mun samningurinn styðja mjög við markaðssetningu á einkaleyfisvörðum vörum NeckCare í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Samstarfið styrkir stöðu okkar á alþjóðlegum heilbrigðistæknimarkaði og við erum því mjög bjartsýnir á að okkur takist að byggja upp sterkt sölu- og dreifinet á heimsvísu. Kim De Roy hefur nærri 20 ára reynslu í sölu og markaðssetningu lækningatækja á öllum helstu mörkuðum heims og án vafa mun þekking hans opna félaginu ný og spennandi sóknarfæri á krefjandi alþjóðlegum mörkuðum. Framtíðarsýn K!M ehf. er nátengd okkar og verður okkur traustur grunnur til að byggja á fyrir frekari rannsóknar- og þróunarsamvinnu. Kim De Roy mun veita viðskipta- og markaðsþróun félagsins forstöðu í Evrópu og Bandaríkjunum auk þess að styðja við rannsóknar- og þróunarstarfs félagsins," segir Þorsteinn.

Vörurnar hlotið góðar viðtökur

NeckCare Holding selur veflægar greiningar- og endurhæfingarlausnir á hreyfiskaða á alþjóðlegum mörkuðum. Síðastliðið sumar hóf fyrirtækið sölu á fyrstu vörum sínum, sem heita NeckGear og NeckSmart. Um er að ræða hátæknibúnað sem leggur hlutlægt mat á stoðkerfisvanda, sem nýtist jafnt til greiningar og endurhæfingar. Félagið hefur einkaleyfisverndað vörur sínar í þremur heimsálfum; Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu. Selur félagið langmest af búnaði sínum í þessum þremur álfum og hefur salan gengið mjög vel að sögn Þorsteins.

„Við erum ánægð með hve mikill áhugi hefur verið á vörunum okkar. Við höfum átt í góðu samstarfi við Háskólann í Ljubljana og í lok síðasta árs fengum við mjög jákvæðar niðurstöður úr rannsóknum þar sem notast var við búnaðinn á sjúklingum með háls- og bakvanda."

135 milljarða dollara markaður

K!M ehf. sérhæfir sig í framþróun í sjúkraþjálfun og endurhæfingu þar sem stuðst er við nýjustu tækni og árangurstengdar og hlutlægar mælingar. Framtíðarsýn félagsins er að hámarka árangur og getu þeirra sem treysta á sjúkraþjálfun og endurhæfingu til að ná bata eftir slys eða önnur áföll. Til að ná markmiðum sínum fjárfestir K!M ehf. í þróun á meðferðaráætlunum og hátækni á sviði endurhæfingar.

„Flest heilbrigðiskerfi heims eru undir miklu álagi. Kostnaður þeirra vex hratt og krafan um gagnreynt starf og árangurstengdar niðurstöður eyskt stöðugt. Sú einkaleyfisvarða tækni sem NeckSmart byggir á setur NeckCare Holding í þá sérstöðu að geta boðið eina greininga- og endurhæfingarkerfi sinnar tegundar sem byggir bæði mat og meðferðaáætlanir á hlutlægum mælingum. Þeir markaðir sem um ræðir eru mjög stórir og sem dæmi um þá er markaðsstærðin í Bandaríkjunum vegna háls- og bakvandamála 135 milljarðar dollara.  Ég er því mjög spenntur að takast á við þetta spennandi verkefni og kynna NeckSmart-kerfið fyrir heimsbyggðinni.  Ég er einnig mjög spenntur fyrir þeim tækifærum sem felast í frekari rannsóknum og þróun á þessu sviði. Þá sérstaklega hvernig NeckCare-tæknina má nýta til bættrar endurhæfingar og eftirfylgni með sjúklingum," segir Kim De Roy.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér