Ekkert er hæft í orðrómi um samruna stórra fjármálafyrirtækja eins og banka að sögn þeirra viðmælenda Viðskiptablaðsins sem gerst þekkja til þessara mála. Einn viðmælandi blaðsins, sem er hátt settur innan viðskiptalífsins, segir að það kunni á einhverjum tímapunkti að vera hagstætt fyrir fjármálafyrirtæki að sameinast. Sá tími sé þó ekki til staðar nú.

Fjármögnun bankanna muni ekki verða auðveldari eftir slíka aðgerð við þær aðstæður sem nú ríki í fjármálaheiminum.

Þessi sami viðmælandi Viðskiptablaðsins telur að orðrómurinn um mögulega sameininingu megi ef til vill rekja til þess að augu almennings og stjórnvalda séu að opnast fyrir því að hægt sé að byggja upp stærri og sterkari eignir með samruna - með hagsmuni neytenda að leiðarljósi - en áður hafi slíkt verið talið ómögulegt vegna samkeppnissjónarmiða.

Nú sé litið á íslensku bankana, svo dæmi sé tekið, sem hluta af stærra svæði en áður; markaðssvæði þeirra sé í raun öll Evrópa en ekki bara litla Ísland. Túlkun á samkeppnislögum hljóti að fara að taka mið af því.

Hvað sem síðar kunni að verða sé þó sameining banka ekki uppi á borðinu nú.