Enn á ný hafa bandarísk yfirvöld neyðst til að opna fjárhirslur sínar til að bjarga fjármálafyrirtæki í neyð. Hins vegar er veigamikill munur á björgun tryggingarisans AIG og aðgerðunum sem gripið var til vegna stöðu Fannie, Freddie og Bear Stearns.

Bandaríski seðlabankinn tilkynnti um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi gjaldþrot AIG, eins stærsta tryggingafélags heims. Bankinn mun veita tryggingarisanum 85 milljarða Bandaríkjadala lán gegn því að fá yfirráð yfir tæplega 80% af hlutafé AIG.

Yfirmönnum tryggingafélagsins verður rutt í burtu og nýir fengnir til að koma félaginu á viðunandi kjöl. Samkvæmt tilkynningu sem barst frá seðlabankanum aðfaranótt miðvikudags er gripið til þessara aðgerða til að koma í veg fyrir að ófyrirséðar afleiðingar falls AIG yllu enn frekari streitu á fjármálamörkuðum.

Bandaríski seðlabankinn segir að gjaldþrot tryggingafélagsins hefði meðal annars leitt til enn hærri fjármögnunarkostnaðar og það hefði dregið úr fé heimila og leitt til veikari frammistöðu hagkerfisins.

_______________________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .