Saab bifreið er komin af færibandinu í fyrsta sinn í eitt og hálft ár í bílaverksmiðju fyrirtækisins í Trollhättan í Svíþjóð. Fyrsti bíllinn verður notaður til prófanna en stefnt er að fjöldaframleiðslu á næstunni.

National Electric Vehicle Sweden, sem er í eigu kínverskra fjárfesta, keypti Saab sl. sumar þegar hollenski sportbílaframleiðandinn Spiker gafst upp á eignarhaldinu.

Michael Oestlund, talsmaður Saab, segir að bíllinn sem fyrst fari í framleiðslu í verksmiðjunni í Trollhättan sé mjög líkur 9-3 bílnum sem Saab framleiddi áður en fyrirtækið  fór í þrot árið 2011.

Verður hann búinn hagkvæmri bensínvél með túrbínu. Ætlunin er að 9-3 bíllinn verði seldur í Evrópu og Kína fyrst um sinn og síðar í Bandaríkjunum.

Rafmagnsbíll verður síðan settur í framleiðslu á næsta ári og verður töluvert breyttur frá fyrri 9-3 gerð. Hann verður búinn rafhlöðum frá systurfélaginu Bejing National Battery Technology sem framleiðir rafhlöður í strætisvagna í dag.